Friday, December 26, 2008

Steinþór Guðbjartsson

Eftir Steinþór Guðbjartsson
Ýtarlegar upplýsingar um Utah-farana í nýrri bók
NÆR 400 Íslendingar fluttu til Utah á árunum 1854 til 1914 og nú hefur David Alan Ashby gefið út nýja bók, Icelanders Gather to Utah 1854-1914, með ýtarlegum upplýsingum um þessa vesturfara og fjölskyldur þeirra.
David Ashby segir að tilgangurinn með útgáfu bókarinnar sé að leggja fólki í Utah af íslenskum ættum lið í því að tengjast uppruna sínum. Reyndar er unnið mjög öflugt starf á því sviði á vegum Íslenska félagsins í Utah (IAU), sem var stofnað 1897, og halda afkomendur íslensku Utah-faranna upprunanum hátt á lofti.
Þó nokkuð hefur verið skrifað um flutningana til Utah. David Ashby hefur með þessari bók endurbætt bókina Icelanders of Utah eftir LaNora Allred. Hann byggir líka á safni móður sinnar, Phyllis Higginson Ashby, sem var sagnfræðingur IAU um árabil. Við gerð bókarinnar naut hann aðstoðar Bliss Koyle Anderson, ættfræðings í Spanish Fork og fór í smiðju Hálfdáns Helgasonar sem heldur úti vef um íslenska vesturfara.
Bókin er rúmlega 150 síður í A4 stærð. Höfundur hennar gaf IAU upplagið og það sér um söluna. Eintakið kostar 18 dollara og flutningskostnaður til Íslands er 12 dollarar en pantanir má senda á eftirfarandi heimilisfang:

Icelandic Association of Utah
P.O. Box 874,
Spanish Fork, Utah 84660 USA

No comments: